IFS Greining gerir ráð fyrir að gengisvísitalan verði að meðaltali 183 stig yfir árið 2009 í stað 194 stiga í fyrri spá.

Þetta kemur fram í nýrri efnahagsspá IFS Greiningar en gengi krónunnar er nú á svipuðum slóðum og það var fyrir fall bankanna í haust.

„Styrking krónu síðustu mánuði hefur verið í takti við okkar bjartsýnustu spá um gengisþróun og styrktist nokkuð hraðar en grunnspá okkar,“ segir í efnahagsspá IFS.

Í fyrri verðbólguspá var gert ráð fyrir að verðhækkanir yrðu mestar á fyrri hluta ársins. Mælingar vísitölu neysluverðs síðustu tveggja mánaða hafa verið nokkuð lægri en fyrr spá IFS Greiningar.

„Í nýrri gengisspá er gengið 6% sterkara að meðaltali sem hefur þó nokkur áhrif. Vegna ofangreindra ástæðna, lægra hrávöruverðs og harkalegri samdrætti í eftirspurn en ráð var fyrir gert, spáum við nú að verðbólgan í lok ársins verði um 2,0% í stað 4,6% áður og að meðalverðbólgan verði 10,8% í stað 12,8% áður,“ segir í efnahagsspánni.

Þá kemur fram að ein af forsendum þess að hægt sé að afnema gjaldeyrishöft er að verðbólga lækki hratt.

„Lægri verðbólga og gengisstöðugleiki eru nauðsynleg skilyrði fyrir auknum trúverðugleika á íslensku efnahagslífi,“ segir í efnahagsspánni en fram kemur að nýr seðlabankastjóri segir það forgangs verkefni að draga úr verðbólgu og styrkja gengi krónu.

„Til að auka trúverðugleika þarf einnig að marka stefnu í peningamálum en flestir eru sammála um að fráfarandi peningamálastefna skilaði ekki tilætluðum árangri. Ef traust skortir á peningamálastefnuna gæti reynst þrautinni þyngra að afnema gjaldeyrishöftin.“

Seðlabankinn seldi gjaldeyri

„Við gerum enn ráð fyrir hægri gengisstyrkingu að því gefnu að ekki verði veruleg gjaldeyrisinngrip af hálfu Seðlabankans,“ segir í skýrslu IFS og fram kemur að Seðlabankinn seldi gjaldeyri fyrir um 1.350 milljónir króna í janúar síðastliðnum og hélt sölu gjaldeyris áfram í febrúar.

„Þrátt fyrir að um litla fjárhæð sé um að ræða nam sala bankans á gjaldeyri í janúar um 35% af heildarveltu á millibankamarkaði með gjaldeyri. Líklega má rekja gengisstyrkingu krónunnar að stórum hluta til þessa en í grunnspá okkar var ekki gert ráð fyrir gjaldeyrisinngripum,“ segir í skýrslu IFS.

Þá kemur fram að erlendir fjárfestar sitja fastir með um 300 milljarða í skuldabréfum og innstæðubréfum. Ef gengi krónunnar verður sett á flot sé hætta á að vegna ofangreindrar stöðu myndist töluverður þrýstingur á gengi krónunnar.

„Leysa verður þann hnút sem eign erlendra aðila í innlendum skuldabréfum skapar,“ segir í skýrslu IFS.

„Tvenn sjónarmið togast á varðandi gjaldeyrishöft. Annars vegar er hætta á gengisveikingu ef höftin verða afnumin en með þeim hefur tekist að skjóta stoðum aftur undir gengi krónu. Hins vegar eru neikvæð áhrif af því að hafa gjaldeyrishöft til langs tíma. Gjaldeyrishöft til lengri tíma hafa neikvæð áhrif á erlenda fjárfestingu og geta leitt til þess að íslenskt atvinnulíf og fjármálamarkaður einangrast. Auk þess ganga þau gegn almennri stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um frjálst flæði fjármagns og geta stuðlað að rangri verðverðlagningu krónu. Við gjaldeyrishöft ræðst gengi ekki lengur af óheftu framboði og eftirspurn á markaði. Verðbólgan hefur náð hámarki Verðbólgan virðist hafa náð hámarki í 18,6% nú í janúar síðastliðnum, allt útlit er fyrir að verðbólgan muni ganga hratt niður á næstu mánuðum.“