Verðmæti viðskiptanna með bresku tískuverslanakeðjuna Karen Millen er um 15,8 milljarða króna (£120 milljónir). Greitt er fyrir kaupin með peningum og hlutabréfum og eignast hluthafar Karen Millen 25% hlut í hinu sameinaða fyrirtæki. Miðað við hlutdeild hluthafa Karen Millen í sameinuðu félagi og verð Oasis þegar Baugur keypti félagið síðla árs 2003 (£152 milljónir) gerir Greining ÍSB ráð fyrir að nokkuð stór hluti kaupverðsins sé greiddur með peningum.

Í Morgunkorni Greinigar ÍSB er bent á að KB banki átti fyrir þessi viðskipti 13% í Karen Millen og 11% í Oasis. Ekki hefur komið fram hversu stór hluti KB banka verður í sameinuðu félagi en hlutur annarra hluthafa í Karen Millen en stofnendanna Kevin Stanford og Karen Millen er 10% í sameinuðu félagi samkvæmt frétt í The Telegraph (sjá). "Við gerum ráð fyrir að KB banki fái meirihluta söluverðs í peningum og því verði umtalsverður gengishagnaður innleystur í uppgjöri 2. ársfjórðungs bankans. Bent skal á að KB banki hefur ekki sent frá sér tilkynningu um málið og því er hér um okkar ályktun og getgátur að ræða," segir í Morgunkorni ÍSB.