Halli verður á rekstrarniðurstöðu A-hluta borgarsjóðs Reykjavíkur upp á 13,4 milljarða króna að því er kemur fram í fjáragsáætlun Reykjavíkur fyrir árin 2016-2020. Í áætluninni segir að þessi mikli halli komi til af gjaldfærslu vegna lífeyrisskuldbindingar upp á 14 milljarða króna, eða 11,7 milljarða króna umfram áætlun. Er það afleiðing af launahækkunum, sem samið hefur verið um í nýlegum kjarasamningum.

Þar segir jafnframt að launakostnaður vegi um 55% af rekstrarkostnaði A-hluta ef frá er talin breyting lífeyrisskuldbindingar og hafi niðurstöður kjarasamninga því mikil áhrif á rekstur og svigrúm borgarinnar til annarra útgjalda. Í kjarasamningum borgarstarfsmanna árið 2014 var aðeins samið til eins árs, ef frá er talinn samningur sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara sem gildir til ársloka 2016. Því séu flestir kjarasamningar við stéttarfélög starfsmanna borgarinnar lausir og sé talsverð óvissa um niðurstöður þeirra og áhrif á rekstur næstu ára.

Nettó fjármagnsgjöld eru áætluð um 2 milljarðar króna árið 2016, sem er aukning um milljarð króna frá árinu í ár. Í fjárhagsáætluninni segir að hækkun milli ára megi einkum rekja til forsenda um hærri verðbólgu og aukningu hreinna skulda. Árið 2017 er gert ráð fyrir að nettó fjármagnsgjöld lækki lítillega vegna verðlagsþróunar, en frá árinu 2018 fari arður að berast frá Orkuveitu Reykjavíkur sem vegi upp á móti nettó fjármagnsgjöldum.