Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2015 og árin 2016 - 2018 var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær fimmtudaginn 6. nóvember. Heildartekjur Garðabæjar á árinu 2015 eru áætlaðar 10.992 millj.kr., útgjöld án fjármagnsliða eru áætluð 10.246 millj.kr. og fjármagnsgjöld eru áætluð 573 millj.kr.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins 2015 verði jákvæð um 172 milljónir króna. Þá er gert ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 13,66%. Við framlagningu frumvarpsins kynnti Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, hugmyndir meirihlutans um lækkun fasteignaskatts á húsnæði.

Áætlunin gerir ráð fyrir að skuldahlutfall í árslok 2015 verði 97,5% og hlutfallið muni lækka enn frekar á áætlunartímabilinu og verði 94,3% í árslok 2018. Viðmiðunarmörk sem skilgreind eru í sveitastjórnarlögum segja að skuldahlutfallið megi ekki vera hærra en 150%.

Á árinu 2015 er gert ráð fyrir að verja 1.330 millj.kr. til framkvæmda. Helstu framkvæmdir eru tengdar uppbyggingu skólamannvirkja en áætlað er að verja 300 millj.kr. til að ljúka við 1.000 m2 viðbyggingu Hofsstaðaskóla og 200 millj.kr. til að hefja framkvæmdir við 1. áfanga Urriðaholtsskóla en gert er ráð fyrir að hverfið muni byggjast hratt upp á næstu árum.

Í áætluninni eru fjárveitingar samtals að fjárhæð um 300 millj.kr. til framkvæmda við gatnagerð, gangstíga og til úrbóta í hljóðvistarmálum.

Á áætlunartímabilinu 2015 -2018 er gert ráð fyrir að Garðabær verji til framkvæmda 3.650 millj.kr. þar sem m.a. er stefnt að því að hefja framkvæmdir við byggingu fjölnota íþróttahúss.