Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árin 2017 til 2020 er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur hjá bænum verði 201 milljónum á næsta ári. Einnig er áætlað að framkvæmdir að frádregnum tekjum af gatnagerðargjöldum nemi 746 milljónum og að íbúum fjölgi um 3,4% milli ára.

Gert er ráð fyrir að tekjur nemi 9,5 milljörðum á næsta ári og að gjöld fyrir fjármagnsliði nemi 8,3 milljörðum og fjármagnsliðir nemi 653 milljónum.

Gert er ráð fyrir að skuldir sem hlutfall af tekjum muni lækka og að skuldaviðmið samkvæmt sveitastjórnarlögum verði 106% í árslok 2017, sem er fyrir neðan hið lögbundna 150% mark.

Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging Helgafellsskóla en en gert er ráð fyrir að um 500 milljónir króna fari í það verkefni á árinu 2017 og að  fyrsti áfangi skólans verði tekin í notkun haustið 2018, segir í fréttatilkynningu frá Mosfellsbæ. Mikil uppbygging er í Mosfellsbæ, eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá áður.