Gert er ráð fyrir 257 íbúðum auk atvinnuhúsnæðis í blöndu af fjölbýlishúsum og raðhúsum á Vesturbugt. Deiliskipulag fyrir Vesturbugt hefur verið sett í auglýsingu. Deiliskipulagið byggir á rammaskipulagi Graeme Massie Architects fyrir Gömlu höfnina. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að lagt sé  upp úr fjölbreyttri og vandaðri hönnun á húsnæði og almenningsrýmum.

Þá hefur deiliskipulag fyrir svokallaðan Nýlendureit einnig verið sett í auglýsingu. Á því svæði verður að mestu leyti íbúðabyggð og að litlum hluta atvinnuhúsnæði. Á Nýlendureit er áætlað að kirkja rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar rísi. Atvinnustarfsemi verður þó áfram leyfð á þeim lóðum þar sem slík starfsemi er fyrir.

Einnig hefur verið auglýst breyting á aðalskipulagi varðandi Mýrargötu en þar er horfið frá því að fella götuna í stokk.

Tillögurnar og skýrslur má finna á vefsíðunni, www.skipbygg.is. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eru hvattir til að kynna sér tillögurnar.