Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hagvöxtur á árinu í heild verði 3,7%, drifinn áfram af kröftugum vexti einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingar. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans þar sem jafnframt segir að líkt og í öðrum þróuðum  ríkjum sé því gert ráð fyrir að innlend eftirspurn verði í vaxandi mæli drifkraftur hagvaxtar.

Hagvaxtarhorfur fyrir árið í ár hafa því batnað töluvert frá febrúarspá bankans en þá var reiknað með 2,6% hagvexti á árinu í heild. Skýrast betri horfur fyrst og fremst af því að nú er talið að fjárfesting muni aukast mun hraðar en áður var talið í takt við fjölda vísbendinga um fjárfestingaráætlanir fyrirtækja.

Hagvaxtarhorfur til næstu tveggja ára eru lítið breyttar frá febrúarspá  bankans. Gert er ráð fyrir 3,9% hagvexti á næsta ári þar sem saman fer áframhaldandi kröftugur vöxtur einkaneyslu og fjárfestingar. Líkt og í febrúar er talið að heldur hægi á hagvexti árið 2016 þegar hægir á vexti innlendrar eftirspurnar. Gert er ráð fyrir 2,7% hagvexti á því ári en í febrúar var spáð að hann yrði 3%.