*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 20. nóvember 2018 08:16

Gera ráð fyrir 5-7% vexti

Fasteignafélagið Heimavellir munu selja eignir fyrir um 17 milljarða króna á næstu árum á sama tíma og markaðurinn vex.

Ritstjórn
Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla.
Haraldur Guðjónsson

Fasteignafélagið Heimavellir telja að markaðurinn fyrir leiguíbúðir muni vaxa um allt að 5-7% á hverju ári næstu sjö árin. Á sama tíma hyggst félagið kaupa eignir fyrir tæpa 9 milljarða en jafnframt á sama tíma selja eignir fyrir 17 milljarða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

„Rekstur félagsins hefur gengið vel og er í samræmi við áætlanir auk þess sem endurskipulagning á fasteignasafni félagsins hefur gengið vel. Í nýjum stefnumiðum er fjölgun minni íbúða gerð að forgangsmáli og þar með betur komið til móts við þarfir leigumarkaðarins. Félagið mun leggja enn frekari áherslu á endurskipulagningu eignasafnsins en verið hefur og stefnir að því að ljúka henni á árinu 2020. Með þessum breytingum telur félagið sig geta þjónað betur þörfum leigjenda, samhliða aukinni rekstrarhagkvæmni og þannig aukið arðsemi eigna. Miðað er að því að sala fasteigna á tímabilinu 2018-2020 verði samtals um 17 milljarðar króna, m.v. bókfært virði. Á móti koma kaup á nýjum leigueignum á sama tímabili fyrir tæpa 9 milljarða króna. Fasteignasafn félagsins er í dag metið á 55 milljarða króna," segir í tilkynningunni.

Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastóri félagsins segir eftirfarandi:

„Þau stefnumið sem félagið er að setja sér eru eðlilegt framhald af því uppbyggingarstarfi sem hefur átt sér stað undanfarin þrjú ár. Reynslan kennir okkur að við þurfum að vanda vel til þess hvernig við byggjum upp eignasafnið. Í skráningarlýsingu síðastliðið vor var greint frá því að félagið hygðist selja frá sér stakar eignir og óhentugar leigueiningar. Þessi áform hafa gengið vel hjá félaginu sem skilar góðum ávinningi í rekstri sem er forsenda þess að geta boðið leigjendum upp á hagkvæm leigukjör“.

Ný stefnumið í rekstri Heimavalla

Hlutverk félagsins er að eiga reka og leigja íbúðarhúsnæði á almennum markaði á Íslandi með áherslu á hagkvæm leigukjör, langtíma viðskiptasambönd og góða og lipra þjónustu. Á næstu 5-7 árum má gera ráð fyrir að landsmenn verði orðnir 400.000 og að fjöldi leiguíbúða muni vaxa úr 30.000 íbúðum í um 40-42.000 eða um 5-7% að meðaltali á hverju ári. Félagið mun leggja áherslu á að eiga heil fjölbýlishús og að geta boðið upp á litlar og hagkvæmar íbúðir í auknum mæli frá því sem nú er. Þá er stefnt að því að horft til framtíðar verði hlutur höfuðborgarsvæðisins í fasteignasafninu 60%, Reykjanes 25% og önnur svæði 15%.

Áframhaldandi endurskipulagning á eignasafni

Eins og áður sagði hefur verið unnið markvisst að því að endurskipuleggja eignasafn félagsins á þessu ári. Upphaflega stóð til að selja eignir sem metnar voru á um 10 milljarða króna á tímabilinu 2018-2020, eins og fram kom í skráningarlýsingu félagsins síðastliðið vor. Í lok þriðja ársfjórðungs yfirstandandi árs var búið að selja eignir fyrir 3,2 milljarða króna. Í kjölfar endurskoðunar á stefnu félagsins hefur verið tekin ákvörðun um að selja fleiri fasteignir sem falla ekki að langtímastefnu þess. Gert er ráð fyrir að heildar eignasala á árunum 2018-2020 nemi því um 17 milljörðum króna. Á móti er áætlað að félagið fjárfesti í nýjum og hagkvæmari fasteignum fyrir tæpa 9 milljarða króna á þessu sama tímabili. Áðurgreind eignasala er félaginu hagfelld sem sést best á því að rekstrarkostnaður þeirra eigna sem félagið heldur eftir er um 25% af tekjum en rekstrarkostnaður þeirra eigna sem verða  seldar er 30% af tekjum. Að lokinni endurskipulagningu á árinu 2020 munu 1.645 íbúðir verða í eignasafni þess sem er nokkru færra en nú er. Félagið á í dag í viðræðum við Reykjavíkurborg um uppbyggingu á 100 smáíbúðum á svokölluðum Veðurstofureit sem væri þá viðbót. Auk þess mun félagið stefna að frekari vexti í samræmi við stefnu þess.

Eignasalan mun hafa þau áhrif á fjárhag félagsins að fjárbinding mun minnka, svo og tekjur lækka í samræmi við fækkun eigna. Þannig er gert er ráð fyrir að ársvelta 2019 og 2020 verði ríflega 3,5 milljarðar króna og áætlað að EBITDA hlutfall félagsins verði 64% á árinu 2019 og hækki í 67-68% á árinu 2020.