Frá hruni hafa um 300 starfsmenn Ístaks verið við störf í Noregi og á Grænlandi. Kolbeinn Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Ístaks, áætlar að í lok þessa árs verði yfir 70% af verkefnum fyrirtækisins í Noregi. Nú sé fyrirtækið með samninga upp á um 20 milljarða króna þar í landi og eru þeir á ýmsum stigum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.

Áætluð velta Ístaks í Noregi árið 2013 er um 11 milljarðar króna, á Íslandi um 5,5 milljarðar króna og um 2 milljarðar króna í Grænlandi. Kolbeinn segist gjarnan vilja sjá stærri verkefni fara í gang hér innanlands, en lítið sé í hendi í þeim efnum. „Ég gerði mér vonir um að verkefni myndu aukast hægt og bítandi hér heima, en nú er óvíst að svo verði. Það er hins vegar mikið um að vera í Noregi og það má vera að þunginn í starfsemi okkar verði áfram þar í landi næstu ár þar sem við höfum aflað okkur dýrmætrar reynslu, „ segir Kolbeinn í samtali við Morgunblaðið.

Ístak hefur undanfarin misseri verið með verkefni á níu stöðum í Noregi, flest tengd vegagerð og jarðgöngum, en einnig hafnarvinnu og nú síðast gerð vatnsaflsvirkjunar. Um 200 manns eru nú við störf á vegum fyrirtækisins í Noregi og hefur sá fjöldi verið nokkuð stöðugur. Um 100 manns hafa á sama tíma unnið við virkjanagerð á Grænlandi, en þar er vinnan árstíðabundnari og sér fyrir endann á henni næsta vetur.