Í skýrslu sem auðlindastefnunefnd ríkisstjórnarinnar kynnti nú fyrir helgi er gert ráð fyrir stofnun auðlindasjóðs að fyrirmynd norska olíuvogunarsjóðsins.

Ef til þess kemur að óendurnýjanlegar auðlindir (til dæmis olía) skili þjóðinni arði þá er gert ráð fyrir að ráðstöfun þess hluta tekna verði í þágu hagsmuna komandi kynslóða. Þeim tekjum verður með öðrum orðum ráðstafað í Auðlindasjóð að fyrirmynd hins norska olíusjóðs. Eins og kunnugt er vörðu Norðmenn auðlindaarðinum af olíulindum sínum fyrst til að greiða niður skuldir ríkisins og hefur eftir það verið ávaxtaður með fjárfestingum. Þá er mögulegt að nýta ávöxtunina til verkefni hverju sinni.

Hvað varðar auðlindaarð vegna nýtingar endurnýjanlegra auðlinda (til dæmis sjávarútvegs) er ekki gert ráð fyrir að farið verði í eiginlega sjóðssöfnun heldur verði arðinum ráðstafað með sýnilegum hætti í verkefni og málaflokka af fjárveitingavaldinu. Í því sambandi er lagt til að Auðlindareikningur verði hluti ríkisreiknings. Þær tekjur ríkisins sem upprunar eru í auðlindaarði þjóðarinnar verða þá teknar saman og birtar sérstaklega í Auðlindareikningi.