Mosfellsbær og Landsbankinn hafa undirritað samkomulag um áframhaldandi uppbyggingu í Helgafellslandi en Landsbankinn hefur nýverið eignast lóðir og lendur í hverfinu vegna uppgjörs við Helgafellsbyggingar hf. Kemur þetta fram í tilkynninug, en þar segir að með þessu ljúki nokkurra ára stöðnun og óvissu um uppbyggingu í hverfinu.

Samkvæmt samkomulaginu mun Mosfellsbær meðal annars annast gatnaframkvæmdir, gerð göngustíga og frágang á svæðinu. Mosfellsbær mun einnig koma upp grunnþjónustu en þess má geta að fræðslunefnd hefur nýverið samþykkt að undirbúningur skuli hafin á skólabyggingu á svæðinu en þar er bæði gert ráð fyrir leik- og grunnskóla. Landsbankinn lætur Mosfellsbæ í té land undir íbúðabyggð í Helgafelli og stendur straum af gatnagerðargjöldum.

Í Helgafellslandi er gert ráð fyrir um 1000 íbúða blandaðri byggð fjölbýlis- og sérbýlishúsa. Í tilkynningunni segir að eftirspurn eftir íbúðum í Mosfellsbæ hafi verið töluverð að undanförnu og því megi búast við að byggingarframkvæmdir hefjist þar fljótlega. Gera megi ráð fyrir að í hverfinu verði eitthvað um minni íbúðir sem henti vel fyrir ungar fjölskyldur.