Ákvörðun matsfyrirtækisins Standard & Poor's að staðfesta lánshæfiseinkunn ríkissjóðs byggir á þeirri forsendu að álverið í Helguvík rísi og að ríkisstjórnin muni ekki koma í veg fyrir uppbyggingu stóriðju á landinu. Þetta hefur Morgunblaðið eftir Eileen Zhang, sem hefur yfirumsjón með greiningu á íslenska hagkerfinu hjá S&P. Zhang segir stjórnvöld ekki hafa gefið neitt í skyn þess efnis að þau muni standa í vegi fyrir stóriðju og gert sé ráð fyrir í matinu að verkefni sem þegar hafa verið ákveðin verði að veruleika.

Zhang segir að einkunn ríkissjóðs í krónum hafi verið lækkuð um einn flokk þar sem ljóst sé að gjaldeyrishöftin verði í gildi lengur en áður var talið. Hins vegar séu þau líka talin nauðsynleg en eins og fram kom í tilkynningu S&P í gær hefði einkunnin sennilega lækkað meira ef ekki væri fyrir gjaldeyrishöftin.