Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa hefur farið hækkandi undanfarið. Á sama tíma hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa lækkað síðustu tvo mánuði, hvort sem litið er til ríkisbréfa eða sértryggðra bréfa. Fjárfárfestar virðast því hafa fært sig úr verðtryggðum skuldabréfum yfir í óverðtryggð bréf og endurspeglar það minni verðbólguvæntingar á markaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá greiningardeild Arion banka.

Vísitala neysluverðs lækkaði meira í júlí en spár gerðu ráð fyrir. Lækkunin nam 0,32% milli mánaða og er útlit fyrir að verðbólgan, sem mælist nú 1,1%, haldist undir eða við verðbólgumarkmið vel inn á næsta ár. Fyrst og fremst eru það innlendir fjárfestar sem síðustu mánuði hafa sótt í óverðtryggð skuldabréf en ekki erlendir aðilar, líkt og misserin á undan.

Verulega hefur dregið úr innflæði erlendra aðila inn á íslenskan skuldabréfamarkað eftir að Seðlabankinn kom á bindingu á innstreymi reiðufjár erlendis frá. Flæðið á skuldabréfamarkaði er því ekki litað af innstreymi erlendra aðila og áður fyrr. Lækkun verðbólguvæntinga á markaði virðist því vera heimatilbúin.