Bandarísku bílaframleiðendurnir hafa nú hver af öðrum tilkynnt um fjárfestingar í heimalandinu. Trump hefur tekið tíðindunum fagnandi og virðist alheimurinn búast við því að fjöldi starfa verði til í bílaiðnaðinum.

Greiningaraðilar hjá Jefferies Group LLC eru þó ekki alveg sannfærðir. Þeir telja að fjárfestingarnar muni fyrst og fremst skapa störf fyrir vélmenni og að framleiðsluferlið muni þar af leiðandi verða sjálfvirkara og krefjast færri vinnandi handa.

Fiat Chrysler hefur til að mynda haldið því fram að fjárfestingar þeirra muni skapa um 2000 störf og hefur verið talað um svipaðar tölur í kring um fjárfestingar Ford og General Motors.

Samkvæmt greiningaraðilunum eru fyrirtækin ekki að hætta við fjárfestingar í Mexíkó vegna hótana tilvonandi forsetans, heldur fyrst og fremst vegna þess að þau vænta lægri skatta.