Hagvöxtur á heimsvísu verður 3,0% á þessu ári samkvæmt nýjustu spá bresku hugveitunnar National Institute of Economic and Social Research (NIESR). Er það lækkun frá fyrri spá rannsóknarstofnunarinnar sem gefin var út í maí síðastliðnum en þá spáði hún 3,2% hagvexti, að því er fram kemur í frétt BBC News .

Reynist þessar tölur réttar verður þetta minnsti vöxtur í heimshagkerfinu frá fjármálakrísunni árið 2008. Helsta ástæðan fyrir þessari lækkun verður minni hagvöxtur í Bandaríkjunum að mati stofnunarinnar. Hins vegar lækkaði hún spá sína fyrir evrusvæðið aðeins lítillega. Hagvaxtarspáin fyrir Bretland er óbreytt þar sem stofnunin spáir 2,5% hagvexti.

NIESR segir grískan efnahag hafa töluvert að segja um hver niðurstaðan verður í lok ársins. Spáin byggir hins vegar á því að Grikkir muni fá talsverða eftirgjöf skulda, sem þó er alls ekki öruggt eins og staðan er í dag. Þá segir einnig að óvissa ríki um hagvöxt í Kína sem geti ógnað spánni, þar sem kínversk stjórnvöld spái 7,0% hagvexti á árinu en sumir greiningaraðilar geri aðeins ráð fyrir 3,0% vexti.