IFS greining spáir óbreyttum stýrivöxtum, en stýrivaxtaákvörðunardagur er á miðvikudaginn. IFS telur ólíklegt að verðbólguvæntingar til lengri tíma lækki niður í 2,5% á næstunni, sem muni styðja frekar við óbreytta vexti.

„Inngripastefna Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hefur dregið úr sveiflum í gengi krónunnar sem hefur jafnframt dregið úr verðbólguþrýstingi og lækkað verðbólguvæntingar. Frá síðasta stýrivaxtafundi hefur krónan styrkst um 0,4%. Hagvöxtur á árinu 2013 reyndist vera mun meiri en búist var við og mældist hann 3,3% en SÍ hafði spáð 3,0% hagvexti. Á næstu tveimur árum gerir bankinn einnig ráð fyrir góðum hagvexti. Jafnframt hefur vinnumarkaðurinn sýnt sterkan bata á undanförnum misserum og að slakinn í þjóðarbúskapnum mun snúast í spennu á spátímabilinu,“ segir í spá IFS greiningar.

Þá segir að þessir þættir muni, að öðru óbreyttu, hafa frekar áhrif á stýrivexti til hækkunar en lækkunar og við það megi bæta að aðgerðir ríkisstjórnar að lækka verðtryggðar skuldir heimilanna muni einnig þrýsta á hækkun stýrivaxta.