Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að hlutabréfamarkaðurinn, mældur með K-90 vísitölunni, hækki í kringum 13% yfir árið. Hækkunin muni stafa að miklu leyti af framgangi eðlilegrar ávöxtunarkröfu þeirra fyrirtækja á markaði sem vísitöluna mynda auk þess sem búist er við ákveðinni verðleiðréttingu á einstökum félagum.

Fram kemur í greiningunni að hlutabréfamarkaðurinn hafi hækkað um 7% á síðasta ári mældur með K-90. Áður en árið hófst hafi greiningin gert ráð fyrir meiri hækkun þar sem verðþróun ársins 2013 hafi bent til töluverðs eftirspurnarþrýstings á markaði. Á árinu 2014 hafi þessi þrýstingur hins vegar gefið eftir enda hafi verið töluvert framboð af annars konar fjárfestingum.

„Þá leiddi léleg rekstrarniðurstaða ákveðinna félaga til lækkunar gengis þeirra auk þess sem einhver félög byrjuðu árið 2014 í nokkuð háu gengi og var þá innistæða fyrir ákveðinni verðleiðréttingu,“ segir í greiningu bankans.

Þrjár nýskráningar

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að þrjú félög verði skráð á þessu ári, Reitir, Eik og Skipti, og segir líkur á því að félögin verði skráð fyrir sumarbyrjun.

„Heildar markaðsvirði þessara félaga liggur að öllum líkindum í kringum 100 ma.kr. Markaðsvirði skráðra félag í ársbyrjun 2015 var um 640 ma.kr. og er því um töluverða viðbót að ræða. Þau félög er skráð verða eru þó að miklu leiti komin í endanlegt eignarhald og því ekki líkur á að skráning þessar félaga muni skila sér í verulegri veltuaukningu þrátt fyrir að einhverjir eigendur muni af eðlilegum ástæðum að mestu yfirgefa eigendahópinn við skráningu,“ segir í greiningunni.

Lesa má umfjöllunina í heild sinni hér .