Greiningardeild Íslandsbanka býst við vaxtahækkun í maí. Þetta kom fram í morgunkornum sem birtust á föstudag.

Þar sagði að harður tónn hefði verið á kynningarfundi peningastefnunefndar í kjölfar síðustu vaxtaákvörðunar og ekki væri við öðru að búast nú í maí.

Í morgunkornunum sagði meðal annars:

„Sem kunnugt er kom fram á síðasta fundi að ef verðbólguhorfur batna ekki umtalsvert á næstunni muni koma til frekari hækkunar nafnvaxta til þess að taumhald peningastefnunnar verði nægjanlegt. Taldi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, að mikið yrði að gerast ef það yrði ekki raunin í maí. Erum við því enn á þeirri skoðun að nefndin muni hækka vexti bankans um a.m.k. 0,25 prósentur í maí.“