Ljóst þykir að ríkið þarf að leggja Íbúðalánasjóði til a.m.k. 14 milljarða til að bæta eiginfjárstöðu sjóðsins en ekki er gert ráð fyrir slíkum útgjöldum í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þar sem það er sett fram á rekstrargrunni.

Í kynningu Oddnýjar Harðardóttur fjármálaráðherra á fjárlagafrumvarpinu á þriðjudag kom fram að eiginfjárstaða Íbúðalánasjóðs væri veik og unnið væri að mati á fjárhagsstöðu hans. Því væru útgjöld vegna sjóðsins einn af óvissuþáttunum ásamt útkomu málaferla vegna Icesave málsins. Ástæðan fyrir því að ekki er gert ráð fyrir útgjöldum ríkis
vegna fyrirsjáanlegrar fjárþarfar sjóðsins í frumvarpi til fjárlaga er vegna þess að fjárlög eru sett fram á rekstrargrunni segir Gunnar Tryggvason, aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Framlag ríkissjóðs mun mynda eign í reikningum ríkissjóðs ef til þess kæmi.

Gera ráð fyrir miklum viðsnúningi

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður skili 887 milljóna króna hagnaði á árinu 2013. Fjárlög fyrir árið 2012 gerðu ráð fyrir tapi upp á 1.269 milljónir en sjóðurinn hefur þegar tapað 3.109 milljónum á fyrstu sex mánuðum ársins. Töluverðan viðsnúning þarf því til í rekstri sjóðsins svo að hann nái að standast áætlanir stjórnvalda. Á síðari sex mánuðum ársins þarf sjóðurinn að skila 1.840 milljóna króna hagnaði svo að áætlun síðustu fjárlaga gangi upp.

Aðspurður hvort ekki líti út fyrir að talsvert tap verði á rekstri sjóðsins á þessu ári segir Sigurður svo vera. „Í rauninni er það vegna þess að þróunin er verri á lánasafninu og þeim sem eru í vandræðum. Fullnustueignir eru fleiri,“ segir Sigurður sem segir hluta lánasafnsins vera í mjög erfiðri stöðu. „Það er eitthvað sem heldur áfram og við sjáum ekki ennþá almennilega fyrir endann á því.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.