Markaðsaðilar gera ráð fyrir því að verðbólga verði 4,6% á þriðja ársfjórðungi, 4,8% eftir eitt ár og 4,5% eftir tvö ár. Verðbólguvæntingar eru nokkuð lægri en þeir gerðu ráð fyrir fyrr á árinu, samkvæmt niðurstöðum ársfjórðungslegrar væntingakönnnunar Seðlabankans á væntingum markaðsaðila til ýmissa hagstærða. Þetta er þriðja skiptið sem könnunin er gerð.

Könnunin náði til 35 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 25 aðilum og var svarhlutfallið því 69%.

Seðlabankinn segir niðurstöðurnar sýna að vænst er lægri verðbólgu en í síðustu könnun.

Á sama tíma og markaðsaðilar vænta þess að verðbólga verði lægri en þeir bjuggust áður við þá gera þeir ráð fyrir því að gengi krónu gagnvart evru verði 155 krónur eftir eitt ár. Það er 11 króna  lækkun á gengi evrunnar frá síðustu könnun.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að veðlánavextir Seðlabankans verði 5,8% í lok september á þessu ári, en það eru 0,2 prósentum hærri vextir en í síðustu könnun bankans. Að auki gera markaðsaðilar ráð fyrir að veðlánavextir bankans verði 6,3% eftir eitt ár og er það óbreytt frá síðustu könnun.