*

fimmtudagur, 5. desember 2019
Innlent 17. júní 2019 11:00

Gera reiðufé aðgengilegt á stafrænu formi

Dótturfyrirtæki Monerium ehf, Monerium EMI ehf, hefur fyrst fyrirtækja á Íslandi fengið leyfi Fjármálaeftirlitsins til útgáfu rafeyris.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Dótturfyrirtæki Monerium ehf, Monerium EMI ehf, hefur fyrst fyrirtækja á Íslandi fengið leyfi Fjármálaeftirlitsins til útgáfu rafeyris. Leyfið er jafnframt hið fyrsta í heimi sem veitt er til útgáfu rafeyris á bálkakeðjur samkvæmt tilskipun ESB um útgáfu rafeyris.

Útgáfan verður samkvæmt lögum 17/2013 um útgáfu og meðferð rafeyris innan EES eins og nánar kveður á um í lögunum. Veiting þjónustu utan EES er háð samþykki FME og lagaramma viðkomandi þjóðríkja.

Núverandi tilskipun ESB um rafeyri (e. e-money) var gefin út 2009 og skilgreinir með hvaða hætti gefa má út stafrænt reiðufé. Útgáfa rafeyris hefur hingað til fyrst og fremst átt sér stað á fyrirfram greiddum kortum og í forrit á farsíma. Útgáfu Monerium EMI á rafeyri á bálkakeðjur er ætlað að einfalda og sjálfvirknivæða færslur á reiðufé og fækka milliliðum á ýmsum sviðum viðskipta, þar á meðal greiðsluþjónstu, verðbréfaviðskiptum, og vefverslun. Útgáfa rafeyris á bálkakeðjur gerir jafnframt kleift að millifæra hefðbundna peninga á jafningjaneti án aðkomu milliliða, með þeim hætti sem Satoshi Nakamoto fyrst lýsti, í samræmi við gildandi lög og í samstarfi við eftirlitsaðila.

Monerium var stofnað árið 2015. Stofnendur eru fjórir íslenskir frumkvöðlar með víðtæka reynslu á sviði fjármála og upplýsingatækni. Á síðasta ári leiddi Crowberry Capital $2M fjárfestingu í Monerium með þátttöku ConsenSys, Eignarhaldsfélagsins Hofs og nokkurra einstaklinga. Áður en sótt var um leyfi til útgáfu rafeyris vann fyrirtækið skýrslu fyrir eftirlitsskylda fjármálastofnun um notagildi bálkakeðja í fjármálaþjónustu og þróaði lausn til útgáfu hefðbundinna peninga á bálkakeðjuna Ethereum í samvinnu við bandaríska fyrirtækið ConsenSys.

Stjórnarformaður Monerium, Jón Helgi Egilsson, hefur áður gengt ýmsum trúnaðarstöðum, meðal annars sem formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. Hann mun tilkynna fyrirhugaða útgáfu rafeyris á ráðstefnu um rafrænt reiðufé sem haldin verður í Stokkhólmi þann 14. júní, The Future of Money: Central Bank Digital Currency Conference. Í ávarpi hans mun hann meðal annars segja: Útgáfa Monerium á rafeyri mun gera færslur með reiðufé á bálkakeðjur forritanlegar. Auk þess byggir útgáfan á traustum ramma ESB og er hið næsta sem komast má útgáfu seðlabanka á rafrænu reiðufé.”

Leyfið er stór áfangi fyrir Monerium” að sögn framkvæmdastjóra Monerium, Sveins Valfells. Markmið okkar er að gera reiðufé aðgengilegt á stafrænu formi með öruggum og einföldum hætti. Til gera útgáfuna mögulega höfum við hannað og útfært rafræna skýjalausn sem tengja má við allar helstu bálkakeðjur og viðtæki. Einnig er hægt að bæta við annari fjármálaþjónustu.” Lausnin er byggð á opnum stöðlum og ætluð til nota sem íhlutur eða stoðþjónusta við aðra stafræna fjármálagjörninga (e. decentralized financial applications). Að leyfi fengnu mun Monerium hefja takamarkaða útgáfu rafeyris í lokuðum hópi notenda (e. beta). Fyrirtækið hyggst koma á samstarfi við þróunaraðila bálkakeðja og tengdra lausna í þeim tilgangi að stuðla að alþjóðlegri notkun rafeyris á helstu bálkakeðjum.