Stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum gerðu í júní upp við íslenska félagið Loftleiðir Cabo Verde eftir að hafa þjóðnýtt 51% hlut félagsins í Cabo Verde Airlines á síðasta ári.

Loftleiðir Cabo Verde eru 70% í eigu Loftleiða, dótturfélags Icelandair og 30% í eigu íslenskra fjárfesta, meðal annars Björgólfs Jóhannssonar, fyrrverandi forstjóra Icelandair. 

Loftleiðir Cabo Verde keyptu 51% hlut í flugfélaginu Cabo Verde Airlines í ársbyrjun 2019 af stjórnvöldum á Grænhöfðaeyjum með það að markmiði að byggja þar upp tengimiðstöð á milli heimsálfa í sunnanverðu Atlantshafi með álíka hætti og Icelandair hefur gert í Keflavík.

Í júní í fyrra þjóðnýttu stjórnvöld þar í landi flugfélagið og báru við að Loftleiðir hefðu ekki staðið við samninga um fjármögnun félagsins, en þá hafði alþjóðaflug nýlega hafist á ný frá eyjunum eftir 15 mánaða hlé í faraldrinum. Fulltrúar Loftleiða höfnuðu því og stefndu stjórnvöldum sem héldu einnig uppi gagnkröfum í málinu. 

Í samkomulaginu sem gert var í sumar var fallið frá frekari málssóknum að sögn Erlends Svavarssonar, framkvæmdastjóra hjá Loftleiðum sem var einnig forstjóri Cabo Verde Airlines á meðan félagið var í íslenskri eigu.

„Með samkomulaginu gerðu aðilar upp öll sín ágreiningsmál og á það einnig við um deilur í tengslum við þjóðnýtinguna,“ segir Erlendur. Hann segist enn hafa fulla trúa á því rekstrarmódeli sem Loftleiðir unnu að á Grænhöfðaeyjum með eyjuna sem tengimiðstöð. Erlendur bendir á að Carlos Santos, ferðamála- og samgönguráðherra Grænhöfðaeyja, hafi nýlega sagt að stefnt væri að því að einkavæða flugfélagið á ný þannig að það verði byggt upp með álíkum hætti og fyrir heimsfaraldurinn.

Loftleiðir Cabo Verde höfðu áður fært niður tæplega milljarðs króna fjárfestingu sína í Cabo Verde Airlines að fullu.