Matarkörfur og gjafakort eru efst á blaði þegar kemur að því fyrir fyrirtæki að kaupa gjafir handa starfsfólki og viðskiptavinum.

Reyndar eru sum stærstu fyrirtækja landsins hætt að gefa viðskiptavinum sínum gjafir og hafa jafnvel hætt jólakortasendingum til þeirra sömuleiðis. Í stað þess að gefa viðskiptavinum gjafir eða jólakort hefur Landsbankinn til dæmis gefið til góðgerðarmála andvirði þess að senda prentuð jólakort til viðskiptavina.

Í fyrra nam þessi fjárhæð tæpum 6,2 milljónum króna og rann til Mæðrastyrksnefndar, Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins og Rauða kross Íslands. Þegar kemur að gjöfum til starfsmanna tróna matarkörfur og svokallaðar nytjagjafir á toppnum ásamt gjafakortum í verslanir og verslanamiðstöðvar.

Brynja Gröndal, mannauðsstjóri Arion banka, segist ekki vilja eyðileggja ánægju starfsmanna í ár með því að gefa upp hvað þeir fá í jólagjöf. „Í fyrra fengu starfsmenn matarkörfu, sem í var kjöt, ostur, kaffi og konfekt, auk nytjagjafar. Það gat verið svunta, jólaskraut eða eitthvað slíkt.“