Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra hefur beðið Umhverfisstofnun að gera viðbragðsáætlun vegna hugsanlegs síldardauða í Kolgrafafirði.

Síðastliðinn vetur drapst um 50 þúsund tonn af síld í firðinum í tveimur viðburðum, í desember og febrúar. Á vef atvinnuvegaráðuneytisins segir að erfitt sé að spá fyrir um líkur á að þeir atburðir endurtaki sig, en rétt þyki að gera áætlun um viðbrögð ef slíkt gerist og hafa hana tilbúna áður en sumargotssíldin kemur að landi til vetrardvala. Það gerist venjulega um mánaðamótin september/október.

Flest bendir til að stærstur hluti síldarstofnsins muni halda sig í vetur við sunnanverðan Breiðafjörð eins og undanfarin ár og því þurfi að vakta ástandið við Kolgrafafjörð sérstaklega.