„Mér þætti mjög einkennilegt ef Alþingi lætur það yfir sig ganga að verkfall hjúkrunarfræðinga skelli aftur á þann 15. júlí vegna ófullkominnar lagasetningar. Það kæmi mér verulega á óvart,“ segir Lára V. Júlíusdóttir, lektor við lagadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í vinnurétti, í samtali við Morgunblaðið .

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann teldi skilyrði fyrir skipun gerðardóms í kjaradeilu félagsins gegn ríkinu brostið þegar aðilar undirrituðu samning í fyrradag, þar sem ekki væri gerð krafa um að samningurinn væri samþykktur af félagsmönnum í lögum sem sett voru á verkfall þeirra.

Lára segir hins vegar að gerðardómur verði að öllum líkindum kallaður til felli hjúkrunarfræðingar kjarasamninginn, enda sé kveðið á um skipun dómsins í lögunum. Þá muni verkfallsbann laganna taka gildi verði samningurinn felldur.