*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 7. nóvember 2013 11:18

Gerði athugasemd við fjarveru ráðherra

Umhverfisráðherra var ekki viðstaddur fyrirspurnartíma þótt hann væri staddur í þinghúsinu.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra var ekki staddur í þingsal við óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi í morgun en sat engu að síður í þinghúsinu á sama tíma. 

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG og fyrrverandi umhverfisráðherra, gerði athugasemd við þetta og spurði forseta þingsins hvort ekki væri rétt að bregðast við þessu. „Það er ekki eins og ekki hafi verið tilefni til þess að eiga orðastað við ráðherrann,“ sagði Svandís. 

Einar K. Guðfinnsson, forseti þingsins, vakti athygli á því að í upphafi hverrar viku væru gefnar út upplýsingar um það hvaða ráðherrar yrðu viðstaddir óundirbúnar fyrirspurnir. Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði athugasemd við þetta. „Mér finnst ansi stíft ef það á að gefa það út í upphafi hverrar viku hverjir eigi að vera viðstaddir fyrirspurnartíma,“ sagði Valgerður og taldi að fyrirkomulagið gæti verið sveigjanlegra. 

Einar K. Guðfinnsson þingforseti benti aftur á móti á að kveðið væri á um þetta fyrirkomulag í þingsköpum.