Snædís Ögn Flosadóttir tók við starfi framkvæmdastjóra Eftirlaunasjóðs Félags íslenskra atvinnuflugmanna, EFÍA 1. júlí síðastliðinn. Sjóðurinn er sjálfstæður en Arion banki annast rekstur og eignastýringu lífeyrissjóðsins á grundvelli rekstrarsamnings. Aðspurð segir Snædís nýja starfið leggjast ljómandi vel í sig. „Þetta er mjög spennandi starfog áhugaverður sjóður og því afar ánægjulegt að fá að taka við þessu,“ segir hún.

Snædís hefur starfað hjá Arion banka og forverum hans frá árinu 2006, og á eignastýringarsviði Arion banka frá árinu 2008. Nú síðast starfaði Snædís sem sérfræðingur í eignastýringu fagfjárfesta. Í störfum sínum hefur Snædís öðlast víðtæka reynslu af rekstri og stýringu lífeyrissjóða.

Snædís er með B.Sc. gráðu í verkfræði frá Háskóla Íslands og próf í verðbréfamiðlun, og er að leggja lokahönd á rannsóknarverkefni til M.Sc prófs í iðnaðarverkfræði sem fjallar um áhættustýringu lífeyrissjóða. „Ég gerði þetta aðeins í öfugri röð,“ segir Snædís og hlær. „Var komin með þrjú börn 23 ára gömul og hef því tekið allt nám samhliða fullri vinnu, barnauppeldi, húsbyggingum og öðru sem fylgir en það hefur bara verið lærdómsríkt og ánægjulegt.“

Tjaldferðir í Evrópu algjörtævintýri

Maður Snædísar er Jökull Ingvi Þórðarson, rafvirki sem starfar hjá Ölgerðinni, og eiga þau þrjú börn á aldrinum átta til þrettán. Snædís segir áhugamálin snúast mikið í kringum börnin. Hún hjólar meðal annars heilmikið með þeim um Hafnarfjörðinn þar sem þau búa og eltir þau á handboltaleiki og í tónlistarnám. Ferðalög eru einnig í uppáhaldi bæði innanlands og utan. Aðspurð segir Snædís Þjórsárdalinn, hálendið og Austfirðina í uppáhaldi. „Krakkarnir eru komnir á svo góðan aldur að nú erum við einnig farin að fara í tjaldferðir um Evrópu. Ég get bara ekki mælt með því nógu mikið. Það er æðislegt. Í fyrra tókum við hringferð og vorum í Þýskalandi, Tékklandi, Austurríki, á Ítalíu og í Sviss til skiptis í tjaldi og bændagistingu. Þetta er algjört ævintýri fyrir alla.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .