„Mitt mat er að úrskurður nefndarinnar sé ekki réttur en við munum að sjálfsögðu hlíta honum. Meira hef ég ekki að segja um þennan úrskurð,“ segir Aðalsteinn Ingólfsson, framkvæmdastjóri útgerðarinnar Skinneyjar-Þinganess, í samtali við Fréttablaðið .

Þar kemur fram að útgerðinni hafi verið gert skylt að greiða ákveðið verð fyrir síld upp úr sjó og til bræðslu samkvæmt úrskurði Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna.

Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið ljóst sé að þarna hafi sjómenn verið hlunnfarnir um einhverjar upphæðir. Aðalsteinn gefur hins vegar lítið fyrir það og segir útgerðina borga eftir samningum sem séu í gildi og hún sé ekki að svína á neinum.