Almenni lífeyrissjóðurinn ákvað að taka þátt í lokuðu útboði fyrir fagfjárfesta á 20% hlut í Eimskipafélagi Íslands. Sá fyrirvari var hins vegar gerður á tilboðið að fallið verði frá öllum kaupréttasamningum sem gerðir hafa verið við starfsmenn Eimskips. Að öðrum kosti gildi tilboðið ekki.

Gunnar Baldvinsson
Gunnar Baldvinsson
Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, sagðist ekki vita til að aðrir lífeyrissjóðir hafi gert tilboð með þessum hætti. Það myndi þó ekki koma honum á óvart, segir hann spurður um hvort hann viti til þess að fleiri lífeyrissjóðir hafi sett fyrirvara við tilboð sín.

Hlutafjárútboði fyrir fagfjárfesta í Eimskip lauk klukkan tvö í dag. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu má búast við að niðurstöður verði birtar um klukkan fjögur í dag.

Eins og fram hefur komið hafa lífeyrissjóðirnir verið óvissir hver í sínu lagi um þátttöku í útboðinu. Margir hverjir biðu fram á síðustu stundu með að taka ákvörðun um þátttöku. Kaupréttasamningar sem sex lykilstarfsmenn Eimskips halda um hafa flækt málin. Þannig ákváðu tveir af þremur stærstu lífeyrissjóðir landsins miðað við eignir, Gildi og LSR, að taka ekki þátt í útboðinu. Þriðji sjóðurinn í þeim hópi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, eignaðist um 14% hlut í Eimskip síðasta vor. Í tilkynningu á vefsíðu sjóðsins er tekið fram að sjóðurinn átti ekki aðkomu að ákvörðunum um veitta kauprétti. Hann ætli sér að beita áhrifum sínum til að hófs verði gætt varðandi kjör stjórnenda félagsins.

Uppfært klukkan 16:53: Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins gerðu fleiri aðilar í útboðinu, bæði lífeyrissjóðir og sjóðastýringafyrirtæki, sambærilega fyrirvara við sín tilboð.