Ryan Air þarf að birta fullt miðaverð á sölusíðum sínum strax í upphafi miðakaupaferlisins. Þetta felst í dómi Evrópudómstólsins sem kveðinn var upp í dag. Flugfélagið segir að það hafi þegar gert nauðsynlegar breytingar. Sagt er frá á vef Reuters .

Árið 2011 gerðu ítölsk samkeppnisyfirvöld athugasemd við það að Ryan Air gerði ekki grein fyrir sköttum, gjöldum tengdum kreditkortum og svokölluðu „check-in“ gjaldi þegar farþegar keyptu miða hjá þeim. Umrædd gjöld væru óhjákvæmileg og því bæri að birta þau strax í upphafi miðakaupaferlisins.

Ryan Air fór með málið fyrir dóm og endaði málið fyrir Evrópudómstólnum. Niðurstaða dómsins var að umrædd gjöld þyrftu að koma fram strax í upphafi. Kostnaður við ýmsa aukaþjónustu, á borð við sérstök sæti og auka farangur, má hins vegar koma fram síðar í ferlinu. Ryan Air sagði í tilkynningu að atvik málsins væru um áratugs gömul og nauðsynlegar breytingar hefðu verið gerðar fyrir löngu.