Loku verður skotið fyrir það að einstaklingar og lögaðilar geti gert sér það að leik að oftelja viljandi skattstofna með það að marki að gera síðan endurkröfu á ríkið og njóta ávöxtunar á féð í formi dráttarvaxta. Þetta er meðal þess sem felst í frumvarpi að nýjum lagabálki um innheimtu opinberra skatta og gjalda.

Með frumvarpinu er ákvæðum, sem hingað til hafa verið á víð og dreif í hinum ýmsu lögum, safnað saman á einn stað. Markmiðið er að festa í lög þá framkvæmd sem hefur verið við lýði bæði á stjórnsýslustigi og fyrir dómstólum. Þorri frumvarpsins er óbreyttur frá gildandi rétti en þó er þar á stöku stað að finna merkileg nýmæli, þá helst er varðar greiðslu dráttarvaxta af hálfu ríkisins í kjölfar endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Meginreglan mun áfram vera sú að skattayfirvöld muni hafa frumkvæði að því að endurgreiða ofgreidd gjöld. Hins vegar er nú lögð til sú breyting að greiðsla vaxta vegna endurgreiðslu sé lögákveðin og ekki háð því að menn geri kröfu um greiðslu vaxta eða greiði opinber gjöld með fyrirvara um lögmæti þeirra. Breytingin felur í sér að réttur til dráttarvaxta myndast ekki þegar krafa er gerð um endurgreiðslu eða þegar oftekið var heldur við það tímamark er „[endurgreiðslu] krafan er viðurkennd af þar til bæru stjórnvaldi“. Rétturinn til dráttarvaxta verður því sambærilegur því sem gilt hefur samkvæmt tekjuskattslögunum en á öðrum sviðum er um talsverða skerðingu að ræða frá því sem gilt hefur.

Er þessi breyting meðal annars studd þeim rökum að með þessu séu gjaldendur jafnsettir óháð því hvort þeir hafi notið sérfræðiaðstoðar eður ei en reynsla stjórnvalda sýni að þeir sem njóta sérfræðiaðstoðar öðlist frekar rétt til dráttarvaxta.

„Rökin sem einnig mæla á móti greiðslu dráttarvaxta eru þau að ofgreiddum sköttum er ekki í öllum tilvikum hægt að jafna til greiðsludráttar, t.d. ef gjaldandi greiðir viljandi of mikið. Greiðsla dráttarvaxta vegna ofgreiðslu skatta býður upp á möguleika á að gjaldendur greiði meira en þeim ber til að ná hagstæðari ávöxtun á fé sitt en þeim stendur til boða annars staðar,“ segir í frumvarpinu. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar voru gerðar orðalagsbreytingar á umræddu ákvæði en ekki er um efnisbreytingu að ræða.

Vandkvæði við eftirlit

„Það eru líklega ekki margir sem gætu látið sér detta þetta í hug. Þessi möguleiki er hins vegar til staðar nú. Ef menn hafa lausa peninga geta þeir oftalið töluverðar fjárhæðir og sótt sér ávöxtun sem er talsvert hærri en hefðbundnir bankavextir. Það má ekki vera til staðar kerfi þar sem menn sjá sér hag í því að oftelja skatt, greiða hann og eiga síðan rétt á endurgreiðslu með veglegri ávöxtun,“ segir Snorri Olsen ríkisskattstjóri.

Snorri segir að enn sem komið er hafi ekki vaknað grunur um að einstakir gjaldendur séu að gera sér þetta að leik. Erfitt sé að meta í hvaða tilvikum um sé að ræða viljaverk eða eðlileg mistök við framtalningu. „Þetta getur einnig skapað vandræði við allt eftirlit. Vanalega miðast eftirlitið við að fylgjast með því hvort gjaldaðili sé að telja óeðlilega lítið fram. Óbreytt fyrirkomulag þýddi að við þyrftum einnig að vera vakandi fyrir háum framtölum,“ segir Snorri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .