Icelandair hefur gert samninga um kaup á nýju afþreyingarkerfi fyrir farþegaflugvélar við bandaríska framleiðslufyrirtækið Thales og um kaup á nýjum sætum við franska framleiðandann Aviointerios, segir í tilkynningu.

Með samningunum er undirstrikuð sú stefna Icelandair að bjóða viðskiptavinum sínum fulla þjónustu og þægilegt umhverfi í alþjóðaflugi sínu. Heildarvirði samninganna tveggja er um 1,8 milljarðar króna.

Að sögn Jóns Karls Ólafssonar forstjóra Icelandair Group og Icelandair er um að ræða tímamótasamninga fyrir félagið.

"Í þessum samningum er staðfest ákvörðun um algjöra endurnýjun á öllum innviðum Boeing 757 flugvélaflota okkar og einnig skýr yfirlýsing um að Icelandair ætlar að vera flugfélag í fremsta gæðaflokki þegar kemur að þjónustu um borð og upplifun farþega. Þessi kaup hafa verið lengi í undirbúningi og gert ráð fyrir þeim í áætlunum félagsins," segir Jón Karl.

Jóns Karls segir Icelandair með þessum samningum marka sér stöðu í alþjóðafluginu. "Við fljúgum á tiltölulega löngum flugleiðum, flest okkar flug eru 3-5 klukkustunda löng. Við sjáum þróun í flugheiminum í þá átt að fólk vill hafa eitthvað fyrir stafni á svo löngum leiðum og við sjáum í því mikil viðskiptatækifæri og samkeppnisforskot. Við ætlum okkur að vera í fararbroddi flugfélaga í því að bjóða upp á hagstæð flugfargjöld og þróa um leið arðbæra starfsemi í tengslum við afþreyingu, verslun og þjónustu við farþega okkar."

Skemmtikerfið sem sett verður í vélar Icelandair, Thales IFE i4500, byggir á því að allir farþegar hafi í sæti sínu aðgang skjá og stjórnborði þar sem þeim bjóðast margskonar afþreyingarmöguleikar.

"Við erum með samningnum að tryggja okkur vélbúnað og hugbúnað sem við getum þróað til framtíðar til að sinna óskum og þörfum viðskiptavina. Nú sjáum við fyrir okkur að hver farþegi hafi aðgang að og geti valið sér fjölda nýrra kvikmynda, sjónvarpsþátta, tölvuleikja, tónlist og einnig bækur og annað lesefni. Auk þess sem tæknin býður upp á að farþegar geti keypt tónlist, aðrar stafrænar vörur eins og tölvuleiki og pantað ýmiskonar vörur og þjónustu á áfangastað. Jafnframt því sem þeir geta fylgst með fluginu og fengið upplýsingar um flughafnir, komu og brottfarartíma og margt fleira. Sumt af þessari þjónustu verður farþegum að kostnaðarlausu, en við sjáum í þessu skemmtikerfi einnig umtalsverða tekjumöguleika fyrir félagið ", segir Jón Karl.

Nýju sætin frá Aviointerios, af gerðinni Andromeda og Centaurus, eru framleidd með nýjustu aðferðum og úr nýjum efnum. Þau eru léttari, sterkari og fyrirferðarminni en núverandi sæti og veita farþegum því meira svigrúm og þægindi.

Sætin og skemmtikerfin verða sett í allar Boeing 757 farþegaþotur Icelandair sem notaðar eru í áætlunarflugi félagsins. Endurnýjunin hefst í haust og lýkur vorið 2008.