Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi og settur ríkisendurskoðandi ad hoc í málefnum Lindarhvols ehf., gerir fjölmargar athugasemdir við skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi félagsins og telur nauðsynlegt að þær séu hafðar til hliðsjónar við yfirferð þingnefnda á skýrslunni.

Ítarlega hefur verið fjallað um málefni Lindarhvols í gegnum tíðina en þegar félaginu var komið á fót lá fyrir að Ríkisendurskoðun myndi hafa eftirlit með framkvæmd samnings, um umsýslu, fullnustu og sölu stöðugleikaeigna, sem gerður var milli félagsins og fjármálaráðuneytisins. Þáverandi ríkisendurskoðandi, Sveinn Arason, var hins vegar bróðir stjórnarmanns félagsins og því vanhæfur til verksins. Var það úr að fyrrnefndur Sigurður var settur til starfans.

Þegar Skúli Eggert tók við embættinu í maí 2018 voru vanhæfisástæður ekki lengur fyrir hendi og tók hann yfir verkið. Síðar í sama mánuði sendi Sigurður afrit af afrakstri vinnu hans fram að þeim tíma meðal annars til þingsins. Síðan þá hefur algjör leynd ríkt yfir því skjali, í reynd svo mikil að þingmenn, sem fengu það verkefni að fjalla um skýrsluna og innihald hennar, fá ekki að berja það augum.

Virði ekki metið við afhendingu

Endanleg afurð Ríkisendurskoðunar var birt í apríl á síðasta ári en þingið hefur ekki lokið umfjöllun um skýrsluna. Síðasta vor kom Sigurður fyrir fjarfund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (SEN) en þar kom fram að „umfang og efnistök væru önnur en kæmu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar“. Í byrjun þessa árs sendi hann síðan þinginu bréf þar sem hann rekur ýmis atriði í skýrslunni sem betur hefðu mátt fara eða fela hreinlega í sér rangfærslur.

Í bréfinu gerir Sigurður til að mynda alvarlegar athugasemdir við þá fullyrðingu Ríkisendurskoðunar að heildarvirðisauki stöðugleikaframlaga á starfstíma félagsins hafi numið 75,9 milljörðum króna. Gengið sé út frá því að allur sá virðisauki sé tilkominn vegna starfseminnar án þess að það sé rökstutt frekar. Bendir hann til að mynda á að arðgreiðslur frá Íslandsbanka hafi numið 44,7 milljörðum og Lindarhvoll hvergi komið þar nærri.

„Þá er ekki síður ástæða til að Ríkisendurskoðun geri grein fyrir því hvers vegna hún taldi ekki ástæðu til að meta virði stöðugleikaframlaga við framsal þeirra til ríkissjóðs þar sem virði þeirra var bæði notað til bókunar í ríkisreikningi og sem viðmið við ákvörðun á sölu- og lágmarksverði í fjölmörgum tilvikum við fullnustu á eignum og við mat á árangri af samningi ráðherra og Lindarhvols ehf.,“ segir í bréfinu.

Ófullnægjandi mat á Íslögum

Í annan stað gerir Sigurður athugasemdir við að Ríkisendurskoðun hafi túlkað ummæli í greinargerð sinni ranglega. Þau ummæli lutu að lögmanninum Steinari Þór Guðgeirssyni og stofu hans, Íslögum, en hann kom víða að í starfsemi félagsins. Stjórn félagsins hefði vissulega á öðrum fundi sínum samþykkt ákveðið stjórnskipulag en það hefði aldrei komið til framkvæmda. Þess í stað hefði verið útvistað stórum hluta verka til Steinars og Íslaga. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Sigurður hafi gert athugasemdir við það fyrirkomulag.

Af bréfi Sigurðar má ráða að hann hafi gert talsvert meira en það. Téður Steinar hafi verið stjórnarmaður í fjórum félögum á vegum Lindarhvols, skipaður sem samskiptaaðili við Arion banka í tengslum við sölu hans, stjórnarmaður í ellefu félögum í slitameðferð, hafði umboð stjórnar til umsjónar á tilteknum eignum og svo mætti telja áfram. Þarft hefði verið af hálfu Ríkisendurskoðunar að upplýsa með hvaða hætti mat hefði verið lagt á hæfni annarra starfsmanna lögmannsstofunnar til að sinna verkefnum fyrir Lindarhvol.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .