Ríkisstjórn Sameinuðu arabísku furstadæmanna vinnur nú að lagafrumvarpi sem myndi gera erlendum fjárfestum leyfilegt að eiga meirihlutaeign í fyrirtækjum þar í landi, fari frumvarpið í gegn, segir í frétt Financial Times.
Í dag er erlendum fjárfestum ekki leyfilegt að eiga meira en 49% hlut í flestum tegundum fyrirtækja. Frekari takmarkanir eru svo á vissum tegunda fjármálafyrirtækja, til að mynda er hámarkseignarhlutur erlendra aðila í tryggingarfélögum 25%. Í Dubai og nokkrum öðrum stöðum í furstadæmunum eru þó þar til gerð fríverslunarsvæði sem gera erlendum fjárfestum kleift að fara að fullu með stjórn fyrirtækja sinna, segir í fréttinni.

Fjármálaráðherra furstadæmanna, Sheikha Lubna al-Qasimi, segir að með þessum langþráðu fyrirtækjalögum verði fyrirtækjum innan vissra sviða þjónustugeirans leyfilegt að vera að öllu í eigu erlendra fjárfesta. Erlendum aðilum verður einnig heimilt að fara með stærri eignarhluti í fjármálafyrirtækjum.

Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa þrátt fyrir þessar takmarkanir náð nokkurri velgegni í að laða að sér erlenda fjárfesta fram að þessu. Af þeim erlendu fjárfestingum sem fóru fram í Mið-austurlöndunum árið 2005, nældu Sameinuðu arabísku furstadæmin sér í þriðjungshlut, eða sem samsvarar um 760 milljörðum króna. Stærri aðilar á borð við Alþjóðabankann hafa þó sagt að núverandi fyrirtækjalög þar í landi standi í vegi fyrir að fyrirtæki fari út í stærri fjárfestingar þar.

Frumvarpið verður lagt fram til samþykkis í sumarlok og tæki þá gildi fyrir árslok, að sögn Sheikha Lubna. Ummæli Sheikha Lubna um frumvarpið þykja gefa til kynna að ríkisstjórnin sé nú ekki eins frábitin þeirri hugmynd að opna markaði sína. En frísverslunarviðræður milli Bandaríkjanna og Sameinuðu arabísku furstadæmanna skiluðu ekki árangri og slitnaði upp úr þeim fyrr á árinu. Fulltrúar Bandaríkjanna í samningaviðræðunum sögðu að málefni fjármála svo sem eignarhald fyrirtækja og aðgengi að mörkuðum, væru ástæður að baki því að ekki náðist samkomulag.