Vilhjálmur Egilsson, fráfarandi varaformaður stjórnar Hörpu ohf., skrifar undir ársreikning félagsins vegna ársins 2018 með fyrirvara. Ástæðuna má rekja til þess hvernig skuldabréfalán vegna fjármögnunar hússins er fært til bókar.

Aðalfundur Hörpu ohf. var haldinn í gær. Kom þar meðal annars fram að EBITDA félagsins hafi verið jákvæð um 42 milljónir og er það annað árið í röð sem rekstur skilar afgangi. Ástæðan fyrir neikvæðri afkomu samstæðunnar er skuldabréfalán sem vistað er í dótturfélagi Hörpu, Greiðslumiðluninni Hring ehf.

Í fyrirvara sínum segir Vilhjálmur að skuldbindandi framlagi ríkis og borgar sé ráðstafað til Hring og að því sé ætlað að standa skil á greiðslu vaxta og afborgana af téðum skuldabréfum áður en hægt sé að ráðstafa því annað. Framlagið er fært sem fjáreign í bókhaldi Hrings.

„Í samstæðureikningi Hörpu ohf. ættu bæði skuldir vegna skuldabréfaútgáfunnar að og eignfærslan vegna óskilyrts framlags ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar að koma fram í efnahagsreikningi,“ segir Vilhjálmur.

„Þótt móðurfélagið sé ekki viðtakandi framlagsins er engu að síður færð upp viðskiptaskuld við dótturfélagið eins og að framlagið renni fyrst til móðurfélagsins og einnig sleppt að eignfæra fjáreignina vegna hins óskilyrta framlags. Þessi háttur á meðferð framlagsins og færslu viðskiptaskuldar móðurfélagsins við dótturfélagið gefur ekki glögga mynd af rekstri og efnahag samstæðunnar svo vægt sé til orða tekið,“ segir Vilhjálmur.

Hann hafi beitt sér fyrir breytingu á þessari færslu um árabil en það hafi ekki náð fram að ganga þar sem eigendur stæðu því í vegi. Vilhjálmur hefur setið í stjórn Hörpu frá 2013 og segist hingað til hafa undirritað ársreikninga í þeirri von að eigendurnir, ríki og borg, sæju að sér.

„En nú tel ég að mér sem stjórnarmanni sé ekki lengur stætt á því að taka ábyrgð á því ástandi sem hefur skapast þegar samstæðan er komin með neikvætt eigið fé samkvæmt þessum ársreikningi.

Stjórnarsetu Vilhjálms í félaginu lauk í gær og kom Guðni Tómasson inn í stjórnina í hans stað.