Verðbólgan mun að öllum líkindum lækka um 3% í næsta mánuði og mælast þá 12% og líklega verður hún komin niður fyrir tveggja stafa tölu í sumar.

Þetta segir Snorri Jakobsson, hagfræðingur hjá IFS Greiningu í samtali við Viðskiptablaðið en í morgun birti Hagstofa Íslands tölur sem sýna að 12 mánaða verðbólga í mars mælis 15,2% og hefur nú lækkað tvo mánuði í röð.

Snorri segir að með útsölum í sumar fari í gang verðhjöðnunarskeið sem draga muni verðbólguna hraðar niður en ella. Þá muni verðbólgan halda áfram að lækka á seinni hluta ársins og mögulega verði hún búin að ná verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5%) við lok ársins eða í byrjun næsta árs.

Aðspurður um frekari stýrivaxtalækkanir Seðlabankans segir Snorri að Seðlabankinn hafi hingað til stigið varlega til jarðar og leitist við að halda jákvæðum raunvöxtum. Með lægri verðbólgu hækka raunvextir verulega sem að mati Snorra gefur tilefni til enn frekari stýrivaxtalækkana.