Nýr verkefnastjóri Íslenska byggingarvettvangsins segir starfið þessa dagana mikið snúast um að vinna með tillögur úr átakshóp um húsnæðismál.

„Þetta er samstarfsgrundvöllur Nýsköpunarmiðstöðvar, Mannvirkjastofnunar, Íbúðalánasjóðs og Framkvæmdasýslu ríkisins, auk Samtaka iðnaðarins,“ segir Sandra Hlíf Ocares en starfsaðstaða hennar verður í Húsi atvinnulífsins.

„Mitt hlutverk er að vera svona millistykki, leiða fólk að sama borði, halda utan um starfið og ýta verkefnunum áfram. Það eru fjölmörg tækifæri til einföldunar á öllu ferlinu frá hugmynd að húsnæði, sérstaklega í stafrænni þróun og rafvæðingu í stjórnsýslunni, eins og með upptöku rafrænnar byggingargáttar. Til að hraða uppbyggingunni þarf að auka hraða og skýrleika í kerfinu og tryggja að allir fái sömu afgreiðslu.“

Sandra Hlíf hefur áhuga á alls kyns samfélagsmálum og þar eru auðvitað húsnæðismálin ofarlega á baugi. „Ég er lögfræðingur en hef unnið alls kyns störf frá því að ég útskrifaðist og svo sit ég í barnaverndarnefnd Reykjavíkur þar sem ég var um tíma formaður. Ég var kosningastjóri fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, enda fannst mér vera kominn tími á breytingar þar, til að mynda í húsnæðismálunum,“ segir Sandra Hlíf.

„Ég er mikil hægrimanneskja og hef trú á því að stjórnmálin eigi að fókusa meira á grunnþjónustuna en það sem er umfram það eigi að vera á höndum annarra. Það mætti vera meiri sjálfstæður rekstur víða, til dæmis í skólakerfinu því hann er betri grundvöllur fyrir fjölbreytileika og val fyrir fólk. Ég var sjálf með báðar stúlkurnar mínar í sjálfstætt reknum leikskóla og er með þær í dag í Landakoti sem hefur reynst okkur vel, þó það eigi eflaust líka við í borgarreknum skólum. Það er bara frábært að fólk geti valið hverjum það treysti fyrir börnunum sínum.“

Húsnæðismálin eru Söndru Hlíf einnig nærtæk utan vinnu, en þessa dagana fer mestallur hennar tími í að gera upp gamalt timburhús í Vesturbænum.

„Það var hústökufólk þar þegar ég keypti það fyrir sjö árum og gerði ég það aðeins upp þá, en núna er ég að taka háaloftið alveg í burtu og fá þannig meiri lofthæð og þá auðvitað einangra þakið,“ segir Sandra Hlíf sem einnig stundar hreyfingu ýmis konar, skíði, enda Akureyringur og fluguveiðar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .