Ólöf Þórhallsdóttir, nýr framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá lyfjafyrirtækinu Florealis, segir að sér lítist mjög vel á nýja starfið, en hún hóf störf fyrir nokkrum vikum. „Það er virkilega spennandi að koma inn í svona ungt fyrirtæki. Ég hef verið í lyfjabransanum lengi og það er skemmtileg tilbreyting að hefja störf í fyrirtæki sem er ungt og lítið, miðað við þau fyrirtæki sem ég hef starfað hjá áður. Ég stunda MBA nám samhliða vinnu við Háskólann í Reykjavík og ég finn að það sem ég hef lært í náminu nýtist mér mjög vel í starfinu.

Fyrirtækið stendur frammi fyrir margvíslegum og spennandi áskorunum. Við erum með starfsemi hér heima sem og í Svíþjóð. Ég dreif mig eins fljótt og ég gat út til Svíþjóðar til þess að hitta starfsmennina sem vinna þar. Markmiðið er að koma sölunni úti í Svíþjóð á næsta stig. Vörurnar okkar fást núna í netapótekum þar en þær hafa ekki enn ratað í hillurnar hjá apótekunum. Við erum að vinna hörðum höndum að því að koma vörunum í hillur apótekanna og eigum von á því að fyrsta apótekskeðjan setji kvenvörulínuna okkar í hillur núna í maí."

Þegar Ólöf er ekki í vinnunni þá fer mestur tími hennar í að sinna fyrrnefndu MBA námi og börnum sínum tveimur, sem eru níu og þrettán ára gömul.

„MBA námið tekur talsvert af tíma mínum utan vinnu. Ég á tvö börn og eyði miklum tíma með þeim. Aðalfókusinn þessa daganna er því þetta þrennt, en þegar tími gefst þá hef ég einnig mikinn áhuga á ferðalögum og undanfarin ár hef ég ferðast meira erlendis en innanlands. Ég bjó í Svíþjóð í fimm ár og því liggur leiðin oft þangað, til þess að heimsækja vini þar. Nú nýlega hef ég svo farið í tvær ferðir til Berlínar. Í annað skiptið fór ég með börnunum mínum og hitt skiptið með vinkonum og borgin hentaði mjög vel fyrir báðar ferðirnar, enda fjölbreytt og skemmtileg borg," segir hún.

Þá leggur Ólöf mikið upp úr því að halda reglulegum tengslum við fjölskyldu og vini, til dæmis með því að skipuleggja samveru þar sem spiluð eru borðspil. Auk þess þykir henni mikilvægt að huga að heilsunni með því að stunda líkamsrækt. Ólöf fer einnig reglulega á æskuslóðirnar, að Ægissíðu í Holtum í Rangárvallasýslu. „Við fjölskyldan erum að vinna að því að gera manngerða hella sem eru þarna á jörðinni sýningarhæfa fyrir almenning og ferðamenn. Það er mikil þörf á að gera þessa hella upp og skemmtilegt að vinna að þessu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .