*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 29. desember 2018 15:01

Gerjun í olíugeiranum

Velta olíufélaganna fjögurra nam samtals 126,6 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um 9,5%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samanlagður hagnaður olíufélaganna fjögurra dróst saman um tæplega fimmtung á síðasta ári. Þó var hagnaðurinn meiri en hann hefur verið á síðastliðnum árum. Miklar breytingar eru að eiga sér stað í olíugeiranum, sem tengist hagræðingaraðgerðum en einnig lengri tíma áskorunum. Hagnaður Skeljungs, N1, Olíuverslunar Íslands (Olís) og Atlantsolíu nam alls 4,5 milljörðum króna í fyrra en árið áður var hann 5,6 milljarðar. N1 hagnaðist um 2,1 milljarð en hagnaðist um 3,4 milljarða árið áður. Stærsti eldsneytissali á Íslandi, Skeljungur, hagnaðist um 1,1 milljarð samanborið við 1,3 milljarða árið á undan. Þá minnkaði afkoma minnsta olíufélagsins, Atlantsolíu, úr 204 milljónum í 90 milljónir milli ára. Aðeins Olís jók hagnað sinn milli ára, en hann hækkaði úr 763 milljónum í 1,2 milljarða milli ára.

Velta olíufélaganna fjögurra nam samtals 126,6 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um 9,5%. Skeljungur velti 55,7 milljörðum króna og jókst velta félagsins um rúm 21% milli ára. N1 velti rúmlega 35 milljörðum og jókst veltan um 2,7% milli ára. Velta Olís nam 31,7 milljörðum og jókst um 2,4% milli ára. Þá dróst salan hjá Atlantsolíu saman um 10% milli ára og nam 4,2 milljörðum. Þrjú stærstu olíufélögin eru í 25 efstu sætunum yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins. Þess ber að geta að Olíudreifing flokkast einnig sem olíufélag á listanum, en það annast dreifingu og birgðahald á fljótandi eldsneyti fyrir eigendur sína, N1 og Olís.

Hagnaður sem hlutfall af veltu var 5,9% hjá N1, 3,8% hjá Olís og 2,1% hjá Skeljungi og Atlantsolíu. Arðsemi eigin fjár var 24,7% hjá Olís, 16,5% hjá N1, 16,1% hjá Skeljungi og 10,7% hjá Atlantsolíu. Sé litið til efnahagsreikninga félaganna var eiginfjárhlutfall N1 50%, 39,4% hjá Olís, 37,5% hjá Skeljungi og 23,6% hjá Atlantsolíu undir lok síðasta árs.

Eldsneytissala til neytenda og fyrirtækja – meðal annars til aðila í sjávarútvegi, flugrekstri, flutningastarfsemi, verktakastarfsemi, landbúnaði og stóriðju – myndar stærsta hluta sölu olíufélaganna. Einnig selja þrjú stærstu félögin aðrar vörur á borð við smurolíur, hreinsivörur, efnavörur, rekstrarvörur, hjólbarða og matvörur.

Samkvæmt ársreikningi N1 var eldsneytissala þannig rúmlega 67% af allri veltu félagsins í fyrra, en hjá Skeljungi var hlutfallið 94%. Olís tilgreinir ekki eldsneytissölu sérstaklega í sínum ársreikningum. Þess má geta að Skeljungur starfar einnig í Færeyjum gegnum dótturfélagið P/F Magn.

Með slíkt vöru- og þjónustuframboð er starfsemi olíufélaganna næm fyrir umsvifum í hagkerfinu og heimsmarkaðsverði á olíu, en efnahagsumhverfið á síðasta ári var olíufélögunum almennt hagstætt. Einkaneysla jókst um tæplega 8% og var hagvöxtur 4%. Um 2,2 milljónir erlendra ferðamanna sóttu landið heim í fyrra og fjölgaði þeim um tæplega fjórðung milli ára. Umferð um hringveginn jókst um 10,6%. Heimsmarkaðsverð á bensíni hækkaði um 14%, en íslenska krónan styrktist um tæp 11%. Þjóðhagsspár greiningaraðila gera ráð fyrir áframhaldandi en minnkandi hagvexti næstu tvö til þrjú árin, ásamt hægari fjölgun ferðamanna.

Nánar er fjallað um málið í 300 stærstu, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar Verslunar. Hægt er að kaupa bókina hér.