Gerplustræti 2-4 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta eftir úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þann 17. febrúar síðastliðinn.

Viðskiptablaðið fjallaði um mál Gerplustrætis á sínum tíma en félagið réðst í uppbyggingu á 32 íbúðum í Mosfellsbæ í mars árið 2016. Framkvæmdirnar drógust á langinn og fóru 300 milljónum króna yfir kostnaðaráætlun. Afhending íbúðanna seinkaði um fimmtán mánuði.

Í lok árs 2019 var kaupendum íbúðanna gefinn sá kostur að ljúka fyrirvaralaust við afsalsgreiðslu og falla með því frá skaðabótakröfu vegna afhendingardráttar. Annars væri viðbúið að kröfuhafar félagsins myndu ganga að veðandlaginu, það er hinum nýju íbúðum.

Sjá einnig: Afarkostir í þágu kaupenda

Að mati Gerplustræti mátti rekja seinaganginn til verktakans Vonbrár, sem var úrskurðaður gjaldþrota í apríl 2019. Verktakinn hafi nýtt greiðslur frá verkkaupa til að fjármagna önnur verkefni sem félagið vann að og stofnað til skulda á ábyrgð Gerplustrætis vegna verkefna sem komu byggingu þess félags ekkert við. Vonbrá hafi því verið í verulegri skuld og endað á að gefa út 75 milljón króna skuldabréf til Gerplustrætis til að tryggja framgang verksins og endurgreiðslur.

Í mars á síðasta ári ógilti Héraðsdómur ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að fjarnám hjá Gerplustræti hefði lokið án árangurs .

Eigandi Gerplustræti 2-4 ehf. er fyrirtækið Burður Invest. Stærsti hluthafi Burðs Invest er Orri Guðmundsson lögmaður með 49% hlut, samkvæmt frétt Fréttablaðsins frá október 2019. Einnig voru Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir, Gylfi Einarsson og Ásgeir Kolbeinsson meðal hluthafa Burðar en Ásgeir tók við stjórnarformennsku í Gerplustræti sumarið 2019.