Hæstiréttur í Bretlandi hefur úrskurðað hópi smáfyrirtækja sem kærðu tryggingafélagið Hiscox til að greiða þeim bætur vegna rekstrarstöðvunar í fyrstu bylgju Covid 19 veirufaraldursins í landinu.

Niðurstaðan gæti kostað tryggingageirann í heildina hundruð milljóna breskra punda, en mörg tryggingafélög neituðu að borga fyrirtækjum bætur vegna lokananna því skilmálar trygginganna hafi ekki náð yfir lokanir vegna jafnfordæmalausra atburða og heimsfaraldurs.

Richard Leedham, lögmaður um 30 þúsund tryggingartaka hjá Hiscox sem fóru í mál við tryggingafélagið til að skera úr um hvaða orðalag í tryggingaskilmálum eigi við þá stöðu sem kom upp þegar þeim var gert að loka vegna heimsfaraldursins.

„Þetta er tímamótasigur fyrir lítinn hóp fyrirtækja sem tókust á við risastóran aðila á tryggingamarkaði og hafa nú náð fullnaðarsigri,“ hefur BBC eftir honum. „Það sem er mikilvægt nú er að Hiscox sætti sig við úrskurð Hæstaréttar og byrji að greiða út til þeirra sem tryggðu hjá félaginu, margir hverra eru í hættu á að fara í þrot.“

Tryggingafélögin hafa haldið því fram að einungis sértækustu skilmálar trygginga nái yfir það að greiða bætur vegna lokuna við þær aðstæður sem faraldurinn olli. Byggt verður á þessari niðurstöðu í úrskurðum á um 700 mismunandi skilmálum trygginga sem gætu haft áhrif á 370 þúsund smáfyrirtæki í Bretlandi.

Snúið við dómi undirréttar

Dómurinn nú sneri við dómi í undirrétti en málið er mjög flókið því það snýr að greinum skilmálanna um sjúkdóma, hvort fyrirtækin hafi ekki haft aðgang að eignum sínum og tímabil tapaðra tekna. Meðal þeirra sem fá nú bætur er hárgreiðslustofa James Ollerenshaw sem ekki fékk að vera starfrækt þegar fyrsta lokunarhrinann gekk yfir landið.

Fyrirtæki hans fékk ekki bætur frá tryggingafélagi sínu þó það greiddi andvirði 1.200 punda, eða sem nemur 211 þúsund krónum, árlega fyrir tryggingu fyrir því að truflun yrði á rekstri hans, þar á meðal vegna sjúkdóma.

Ollerenshaw sagði þó að úrskurðurinn í dag hefði ekki bein áhrif á hans kröfur um bætur en gæti verið grundvöllur krafna fyrir hans fyrirtæki og önnur, sem væru lífsspursmál fyrir rekstur hans.

„Greiðslan gæti greitt fyrir meiriháttarkostnað sem er leigan. Þar erum við í skuld,“ segir Ollrenshaw. „Tíminn skiptir máli.“

Fjármálaeftirlit Bretlands kom að málshöfðuninni nú og verður niðurstaðan nýtt við gerð leiðsagnar til annarra tryggingafélaga um hvernig og í hvaða tilfellum þau skuli haga bótagreiðslum til tryggingartaka.