Fyrirtækinu Geymslur ehf., sem reka fyrirtækin og heimasíðurnar geymslur.is, og geymsla24.is, er gert að birta verðskrá sem og kennitölu fyrirtækisins á bakvið síðuna, á heimasíðum sínum að viðurlögðum 40 þúsund króna dagsektum.

Neytendastofa hefur birt ákvörðun þessa efnis á vef sínum í dag, og hefur félagið tvær vikur, eða til 28. september til að bæta úr, að öðrum kosti skuli félagið greiða 40 þúsund krónur á dag þar til farið hefur verið að ákvörðuninni.

Sögðu útleigu húsnæðis ekki þjónusta í skilningi laganna

Þar með tók stofnunin ekki mark á mótbárum Geymslna um að félagið væri ekki að markaðssetja tiltekna vöru eða þjónustu heldur væri það að leigja út húsnæði í litlum, undir 50 fermetra einingum. Það ýddi þar með að ekki væri um þjónustusamninga að ræða heldur leigusamninga, sem ekki sé skylda að birta verðskrá fyrir, hvorki á sölustað né vefsíðum.

Upphaf málsins er að stofnunin sendi fyrirtækinu bréf þann 18. júní síðastliðinn í kjölfar ábendingar um að skoða vefsíður þess, og félagið sagt brjóta lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sem og lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

Fyrirtækið sendi svarbréf til stofnunarinnar strax 25. júní síðastliðinn, viku eftir að erindið var sent fyrirtækinu, en auk áðurnefndra mótbára um að ákvæði laga sem skylda að verð þjónustu sé birt eigi ekki við Geymslur ehf., þá benti fyrirtækið á að rekstur fyrirtækisins uppfylli heldur ekki skilgreiningar á rafrænni þjónustu sem útheimti birtingu á upplýsingum um þjónustuveitenda.

Upplýsingar á heimasíðu sönnun að um þjónustu sé að ræða

Stofnunin stóð þá við ákvörðun sína og hafði mótbárur fyrirtækisins að engu, með þeim rökum að upplýsingagjöf á heimasíðu félagsins sem sýni til að mynda aðgengi, öryggi, opnunartíma, greiðslufyrirkomulag og viðbótarþjónustu, þar á meðal að hægt sé að forpanta geymslur, sé með þeim hætti að ákvæði laga um birtingu verðskrár eigi við.

Jafnframt segir stofnunin að lögin um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu taki til allrar atvinnustarfsemi sem beinist að neytendum og því hafi ekki áhrif hvort þjónusta Geymslna teljist geymsla á lausafjármunum í skilningi þjónustukaupalaga eða leiga húsnæði í skilningi húsaleigulaga.

Loks gildi lög um rafræn viðskipti og rafræna þjónustu til allrar rafrænnar þjónustu í gegnum fasta atvinnustöð hérlendis, sem þýði að allir atvinnurekendur sem staddir séu hér á landi og veiti upplýsingar um þjónustu sína í gegnum vefsíðu falli undir lögin.