Arnar Þórarinn Barðdal, hefur verið dæmdur til að greiða þrotabúi LB09 ehf., sem áður hét Víkurverk ehf., 25,8 milljónir króna með dráttarvöxtum, en hann lét fyrirtækið greiða sér þessa fjárhæð í fjórum millifærslum haustið 2009. Greiðslurnar voru í raun í tvennu lagi. Fyrstu tvær fóru fram 4. og 6. ágúst 2009 og voru samtals 4.590.000 milljónir króna og svo tvær greiðslur dagana 26. og 27. október 2009, samtals 21.197.998. Þann 1. október hafði hins vegar farið fram árangurslaus kyrrsetningargerð hjá félaginu.

Fyrir dómi bar Arnar því við að félagið hafi skuldað honum fé og að hluti millifærslnanna hafi verið til að greiða honum þessa skuld. Í niðurstöðu dómsins segir hins vegar að millifærslur, sem fram fari tæpum mánuði eftir árangurslausa kyrrsetningu, séu ótilhlýðilegar og séu brot á jafnræði kröfuhafa. Þá hafi Arnari ekki tekist að sýna fram á að félagið hafi verið gjaldfært í ágúst þegar fyrri greiðslurnar tvær hafi fóru fram. Hafi hann mátt vera var við ógjaldfærni félagsins, en hann hafi haft persónulegan hag af greiðslunum. Af þessum sökum var greiðslunum rift og Arnari gert að greiða féð til baka.

Arnar er eigandi og framkvæmdastjóri Víkurverks ehf., sem er í sömu starfsemi og Víkurverk var í áður. Þetta félag hét hins vegar Ferðaval ehf. til 14. desember 2009, þegar nafni þess var breytt í Víkurverk ehf.