Síminn hf. er gjörbreytt fyrirtæki frá einkavæðingu árið 2005, en þá voru tekjur félagsins 22 milljarðar króna og EBIDTA rúmar 7 milljarðar króna. Í ár er gert ráð fyrir að fara yfir 30 milljarða króna veltu og EBIDTU nálægt 10 milljörðum króna. Þetta kom fram í ræðu Lýðs Guðmundssonar, stjórnarformanns félagsins á aðalfundi Símans í dag.

Þegar félagið var einkavætt var starfsmannafjöldi 1300 og félagið starfaði einungis á Íslandsmarkaði. Starfsmenn  eru nú um 1900 og félagið starfar í fimm löndum. Á síðasta ári jók Síminn hlutdeild sína í fyrirtækjum sem sinna fjarskiptastarfsemi, upplýsingatækni og þjónustu.

Stærsta verkefnið sem Síminn ræðst í á komandi misserum er þróun þriðju kynslóðar farsímakerfisins, kerfis sem býður upp á stóraukinn gagnaflutningshraða og spennandi nýjungar fyrir farsímanotendur. Síminn hefur fjárfest í hágæða tæknibúnaði frá Ericson og vinnur að uppsetningu búnaðarins um þessar mundir. Stefnt er að því að þriðju kynslóðar farsímakerfið verði komið í fullan rekstur í lok sumars. Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Lýðs Guðmundssonar, stjórnarformanns Símans, á aðalfundi fyrirtækisins fyrir stundu.