Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra lagði í gær fram frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Með frumvarpinu voru kynntar helstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að rétta af fjárlagahalla næstu ára, en gera má ráð fyrir að fjárlagahallinn verði á bilinu 22 – 24 milljarðar á þessu ári.

Samkvæmt frumvarpinu ætlar ríkisstjórnin sér að ná fram um 13 milljörðum króna með aukinni skattheimtu, 1,8 milljarði króna með niðurskurði útgjalda, um 4,4 milljörðum með sparnaði í framkvæmdum á vegum hins opinbera og rúmum 3 milljörðum króna með lækkun tilfærslna í tryggingakerfinu.

Af aukinni skattheimtu ríkisstjórnarinnar má nefna að til stendur að hækka tryggingagjald úr 0,65% í 2,21% og gjald í ábyrðasjóð launa úr 0,1% í 0,2%. Samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra er gert ráð fyrir að þetta skili um 7 milljörðum króna í ár og um 12,5 milljörðum króna á næsta ári.

Þá er lagt til að lagður verði á tímabundinn 8% tekjuskattur á laun umfram 700 þúsund krónur á mánuði. Samkvæmt frumvarpinu mun sú skattahækkun taka gildi um næstu mánaðamót og skila um 2 milljörðum króna í ríkissjóð það sem eftir lifir árs. Samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytisins á sú skattahækkun að skila um 4 milljörðum í ríkissjóð á heilu ári.

Að sama skapi hækka fjármagnstekjur nú um mánaðarmótin, úr 10% í 15%. Hér er um að ræða fjármagnstekjur sem ná umfram 250 þúsund krónur á tímabilinu, þ.e. frá 1. júlí til áramóta. Frumvarp fjármálaráðherra gerir ráð fyrir að skattahækkunin skili um 600 milljónum króna í ríkissjóð það sem eftir lifir árs en um 2,4 milljörðum króna á heilu ári.

Þá má loks nefna að ýmsar matvörur, svo sem gos, kex, sælgæti og kolsýrt vatn verða færðar yfir í efra þrep virðisaukaskatts, úr 7% í 24,5%. Rétt er að geta þess að þann 1. mars 2007 var virðisaukaskattur lækkaður á matvörum niður í 7% en fyrir þann dag báru flestar matvörur ýmist 7% eða 14% virðisaukaskatt. Gert er ráð fyrir að sú skattahækkun skili um 800 milljónum króna í ár.

Hér er því um að ræða 10,4 milljarða með beinni aukinni skattheimtu. Í frumvarpi fjármálaráðherra er gert ráð fyrir 13 milljörðum króna með aukinni skattheimtu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að hluti mismunarins komi til með auknu skattaeftirliti, sem færa á ríkissjóð um 500 milljónir króna í ár og um 2 milljörðum króna á næsta ári.