Samdráttur á evrusvæðinu mun nema allt að 1,9% á þessu ár en hagvöxtur árið 2010 verður aðeins um 0,4%.

Þetta kemur fram í nýrri efnahagsspá Evrópusambandsins (ESB).

Þá er gert ráð fyrir því að meðaltal 12 mánaða verðbólgu verði um 1% hjá þeim 16 ríkjum sem hafa tekið upp evru en 1,8% árið 2010.

Þá er að lokum gert ráð fyrir því að meðalatvinnuleysi evruríkja verði um 10% á þessu ári en meðalatvinnuleysi var 7,5% árið 2008.

Í efnahagsspá Framkvæmdastjórnar ESB eru gerðar vonir til þess að hægt verði að skapa aðstæður þar sem hagkerfi evrusvæðisins geti náð bata á seinni helmingi þessa árs. Það gerist þó ekki fyrr en búið verður að koma jafnvægi á fjármálamarkaði, peningamálastjórn verði með eðlilegu móti og búið að tilkynna um þær björgunaraðgerðir sem nú er verið að undirbúa.

Samkvæmt tölum hagstofu Evrópu, Eurostat hefur verið samdráttur á evrusvæðinu frá því í september í fyrra. Stýrivextir evrópska seðlabankans eru nú 2% og  hafa ekki verið lægri í rúm þrjú ár.