Bílaumboðin gera ráð fyrir nokkrum samdrætti í sölu nýrra bíla á næsta ári í áætlunum sínum. Flest bílaumboðin eru þessa daganna að ganga frá áætlunum sínum fyrir næsta ár en þau byggja meðal annars pantanir sínar á þeim.

Að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar, gerir hann ráð fyrir 20% samdrætti í sölu nýrra bíla á næsta ári í áætlunum sínum. Egill sagðist gera ráð fyrir að salan á nýjum bílum, bæði fólksbílum og sendibílum, verði um það bil 20.000 seld eintök á þessu ári en hann gerir ráð fyrir að salan fari niður í 16.000 selda bíla. "Það væri ágæt sala en segja má að toppurinn hafi komið heldur fyrr en við gerðum ráð fyrir," sagði Egill.

Að sögn Benedikts Eyjólfssonar, forstjóra Bílabúðar Benna, gerir hann ráð fyrir 25 til 35% samdrætti í sölu nýrra bíla á næsta ári í áætlunum sínum. Að sögn Úlfars Hinrikssonar, forstjóra Suzuki bíla á Íslandi, gera þeir ráð fyrir 20 til 25% samdrætti á næsta ári. "Við erum á báðum áttum um það hvað muni gerast og auðvitað ræðst þetta mikið af stöðu krónunnar. Ef hún gefur mikið eftir getur samdrátturinn orðið allt að 50%," sagði Úlfar.

"Við gerum ráð fyrir að markaður minnki um á að giska 20% og verði á bilinu 14-15 þúsund seldir bílar. Við erum annars bjartsýn fyrir okkar hönd, erum með mjög nýja bíla í flestum markaðshlutum og teljum að Hekla og tengd félög verði áfram með um fjórðungshlutdeild á markaði eins og verið hefur undanfarna mánuði," sagði Jón Trausti Ólafsson, sölu- og markaðsstjóri Heklu. Dagur Jónasson, sölustjóri hjá Bernhard ehf., sagði að þeir gerðu ráð fyrir 15 til 20% samdrætti í sölu nýrra bíla á næsta ári.