Á fundi sínum í gær tók bæjarstjórn Fjarðarbyggðar til fyrri umræðu drög að fjárhagsáætlun 2005 fyrir Fjarðabyggð og stofnanir. Rekstrartekjur aðalsjóðs eru áætlaðar 1.477 milljónir kr. en rekstrargjöld 1.385 milljónir kr. Að teknu tilliti til fjármagnstekna þá er afkoma sjóðsins jákvæð sem nemur 115 milljónum króna. Til reksturs aðalsjóðs fara því 91 % skatttekna sem er töluvert lægra hlutfall en á árinu áður. Munar þar mest um auknar tekjur vegna fjölgunar íbúa og hækkunar tekna af fasteignagjöldum.

Bæjarstjórn samþykkti að vísa áætluninni til síðari umræðu sem verður 15. desember n.k.

Í forsendum áætlunar er gert ráð fyrir því að íbúum Fjarðabyggðar fjölgi verulega á árinu en þar munar mest um íbúa í starfsmannaþorpi Fjarðaáls. Í forsendum er gert ráð fyrir því að íbúar Fjarðabyggðar verði í lok ársins 2005 um 4.700 en þar af séu 1.200 íbúar í starfsmannaþorpinu. Þá aukast tekjur vegna fasteignaskatta nokkuð vegna hækkunar fasteignamats. Þetta veldur því að skatttekjur hækka um 264 milljónir kr. eða um 24,2% á milli ára. Alls hækka tekjur allrar samstæðunnar um 393 milljónir kr. og eru alls um 2,1 milljarðar.

Almenn hækkun rekstrarútgjalda samstæðunnar var heimiluð 3 % en að auki var tekið tillit til beiðna sem falla að stækkandi rekstrareiningum vegna fjölgunar íbúa og aukinnar starfsemi. Aukning almennra rekstrargjalda allrar samstæðunnar nemur 36 milljónum kr. frá árinu áður. Gert er ráð fyrir almennri hækkun launa um 3 % en þær forsendur verða endurskoðaðar milli umræðna í bæjarstjórn. Heildargjöld samstæðunnar nema um 1,9 milljarði kr. og fjármagnsgjöld 154 milljónum kr.

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er áætluð jákvæð sem nemur rúmum 30 milljónum kr. en áætlun 2004 gerði ráð fyrir neikvæðri afkomu og er því um mikinn bata í rekstri að ræða.

Fjárfestingar samstæðu eru áætlaðar 887 milljónir kr. nettó og eru þar stærstu liðirnir vegna vatnsveitu 205 milljónir kr., framkvæmda við Grunnskóla Reyðarfjarðar 160 milljónir kr. og 144 milljónir til hafnarframkvæmda.