Geest birti í morgun tilkynningu um lauslegar niðurstöður úr rekstri sínum fyrir árið 2004. Þar er sagt að þrátt fyrir nokkuð erfið skilyrði, eins og endurspeglist í tilkynningum frá stórmörkuðum í Bretlandi, er búist við að veltuaukning verði um 5% á milli ára. Vegna breytinga í uppgjörsaðferðum mun ársreikningur þó að líkindum sýna um 2% samdrátt í sölu á fersku grænmeti. Sala á kældum, tilbúnum matvælum hefur aukist um 4% en söluaukning á seinni hluta ársins var þó minni vegna versnandi skilyrða á smásölumarkaðnum í Bretlandi.

Í tilkynningunni nefnir Geest að erfið skilyrði hafi verið á árinu 2004, einkum vegna aukinnar verðsamkeppni smásala. Til að bregðast við þessum aðstæðum fór Geest í aðgerðir til að lækka kostnað en sá bati sem þar náðist hefur að stórum hluta tapast vegna áframhaldandi verðþrýstings smásala. Einnig hafa þeir farið í hagræðingaraðgerðir og fækkað starfsfólki. Kostnaðarlækkun vegna þess mun skila sér á árinu 2005.
Geest býst áfram við mikilli verðsamkeppni hjá smásölunum en tekur fram að það sé mikill vöxtur í eftirspurn eftir kældri tilbúinni matvöru. Vöxtur þess markaðar er enn vel yfir vexti matvælaiðnaðarins eða um 6%. Nefna þeir í tilkynningunni að fyrirtækið hafi náð nýjum viðskiptasamningum við smásala í Bretlandi sem muni skila tekjum á fyrri helmingi ársins 2005. Áætla þeir að þessir samningar gætu skilað 30 m. punda tekjum árið 2005 eins og bent er á í Morgunkorni Íslandsbanka.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu Geest er staða á breskum smásölumarkaði í járnum. Til þessa hefur Bakkavör ekki orðið fyrir verðþrýstingi af hálfu smásala nema að litlu leyti. Fróðlegt verður að sjá hvað kemur fram í uppgjöri félagsins þann 28. janúar næstkomandi.

Byggt á upplýsingum frá Íslandsbanka.