Northern Foods, sem er stærsti framleiðandi kældra matvæla í Bretlandi gerir ráð fyrir að hagnaður ársins muni dragast saman um 28%. Það er vegna hækkandi orkuverðs og verri samninga við stórmarkaði vegna mikillar samkeppni þeirra á milli um markaðshlutdeild, segir greiningardeild Landsbankans.

Fyrirtækið er einn helsti samkeppnisaðili Bakkavarar í framleiðslu á kældum matvælum í Bretlandi.

Bréf Northern Foods féllu um rúmlega 19% í kjölfar fréttarinnar, sem er mesta lækkun á gengi bréfanna frá því í janúar 2003. Frá áramótum hafa bréfin lækkað um 29%.

Áhugavert verður að sjá hvort harðnandi samkeppni á smásölumarkaði í Bretlandi muni hafa sambærileg áhrif á rekstur Bakkavarar, segir greiningardeildin.

Fyrirtækið hefur sagt upp starfsmönnum og selt rekstrareiningar á síðustu misserum til þess að draga úr kostnaði.

Stjórnendur Northern Foods gera ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta muni nema 45 milljónum punda samanborið við 62,2 milljónir punda árið áður, en reikningsárinu lýkur í lok apríl, segir greiningardeildin.

Northern Foods framleiðir tilbúnar máltíðir sem seldar eru í stórmörkðum og framleiða þeir jafnt undir sínu eigin merki, merki verslanakeðja eða annarra þekktra vörumerkja.